Selmessa fellur niður í Kirkjuselinu vegna þess að ákveðið hefur verið að loka Borgum vegna Covid-19.

Aftur á móti verður helgihald í Grafarvogskirkju með reglubundnum hætti meðan sóttvarnalæknir gefur ekki út að samkomubann ríki í landinu. Það er mikilvægt að við pössum vel hvert annað, styðjum og hvetjum og hughreystum okkur sjálf og náunga okkar. Hjálpum þeim sem finna fyrir óöryggi og eru óttaslegin varðandi framtíðina.

Það er gott að koma í kirkjuna og leggja það sem á hjartanu hvílir í Guðs hendur og uppbyggjast af samfélaginu við hann og við vini og nágranna. Að sjálfsögðu fylgjum við fyrirmælum biskups og landlæknis og minnum á handþvott og spritt, auk þess sem við tökumst ekki í hendur eða kyssumst á meðan ástandið varir.

Á sunnudaginn næsta, 8. mars kl. 11:00 verður fjölskylduguðsþjónusta í kirkjunni og sérstakir gestir frá Leikhópinum Lottu.

Við minnum á góðar ráðleggingar frá Barnaspítala Hringsins: „Við leggjum áherslu á að nota skynsemi við ákvarðanir, láta óttann ekki ná tökum og fara að ráðleggingum sóttvarnalæknis. Þessi faraldur mun ganga yfir og best að takast á við þetta tímabundna ástand með yfirvegun og skynsemi að leiðarljósi. Einnig leggjum við áherslu á að vanda sig í allri umfjöllun um veiruna og varast að vekja óþarfa ótta hjá börnum og unglingum.“

Sýnum hvert öðru umhyggju og kærleika, virðum þarfir þeirra hópa sem eru viðkvæmir og útsettir fyrir smiti, en látum ekki óttann stjórna lífi okkar.