Prédikun í Grafarvogskirkju
Konudagurinn
23. febrúar 2020


Arnfríður Guðmundsdóttir

Náð sé með ykkur og friður, frá Guði sem hefur skapað okkur og endurleyst, og gætir og leiðir allar stundir. Amen.

Gleðilegan konudag.

Í dag langar mig að íhuga með ykkur vald og visku, en þessi hugtök gegna lykilhlutverki í þeim textum sem við heyrðum lesna hér áðan. Í guðspjalli dagsins er Jesús að undirbúa vini sína undir það sem bíður þeirra í Jerúsalem. Þangað er ferðinni heitið til að halda páskana hátíðlega. En Jesús er ekki að tala um hátíðarhöld, um veislur eða mannfagnað. Nei, hann er að tala um að hann verði framseldur í hendur óvina sina, að hann verði hæddur, honum misþyrmt og það hrækt á hann. Síðan verði hann húðstrýktur, hann líflátinn, en síðast nefnir hann það sem sennilega hefur endanlega gert vini hans orðlausa, hann segist nefnilega muni rísa upp frá dauðum. Er nokkuð skrítið að vinirnir hafi hvorki skilið upp né niður í því sem Jesús sagði? Hann var jú meistarinn sem hafði kallað þau til fylgdar við sig. Þau höfðu yfirgefið allt og fylgt honum. En til hvers? Var það til þess að horfa á hann, meistarann, lítillækkaðan, laminn og barinn og síðan festan upp á kross? Þau vissu að krossfesting var aftökuaðferð, ætluð hinum lægst settu í samfélaginu og þeim sem mest hætta stafaði af. Hvernig gat það verið að hann, Messías, sá sem Guð hafði lofað að senda til að leysa þjóð sína úr ánauð, ætti eftir að fá slíka útreið hjá óvinum sínum? Var það ekki hann sem var kominn til að sigra hið illa, til að rétta hlut þeirra sem áttu undir högg að sækja í samfélaginu? Hvernig mátti það vera að hann ætti eftir að deyja á krossi eins og hver annar afbrotamaður, í hópi annarra afbrotamanna, úr lægstu stéttum samfélagsins?

Í pistlinum sem við heyrðum lesinn hér áðan, og var úr bréfi Páls postula til safnaðarins í Korintu, er Páll einmitt að tala um það sem beið Jesú í Jerúsalem á páskahátíðinni, þegar hann var framseldur í hendur óvina sinna, hæddur, hýddur og síðan festur á kross. Eins og vinir Jesú sem skildu ekki hvað hann var að fara þegar hann sagði þeim hvað myndi gerast í Jerúsalem, skilur söfnuðurinn í Korintu ekki merkingu krossfestingarinnar. Þess vegna vilja þau sleppa því að tala um hana. En Páll hvetur þau til að gera það ekki. Hann hvetur þau til að glíma við merkingu krossins. Og hann útskýrir fyrir þeim hvernig það sem virðist veikleiki og heimska hjá okkur mannfólkinu, sé einmitt vald og viska hjá Guði. Hið sanna vald sé því ekki vald þeirra sem beittu Jesú ofbeldi, lítillættu hann og festu á krossinn. Hið sanna vald sé einmitt hið gagnstæða, vald kærleikans, sem birtist í því að Jesús var tilbúinn að standa með þeim sem voru veikir, útskúfaðir og beittir órétti í samfélaginu. Samt vissi hann að með því væri hann að afla sér óvinsælda yfirvalda, bæði andlegra og veraldlegra yfirvalda, sem myndu að öllum líkindum reyna að þagga niður í honum, með því að taka hann úr umferð. Það var líka ástæðan fyrir því að hann valdi að stíga ekki niður af krossinum, heldur að ganga í gegnum þjáninguna og dauðann, vegna þess að hann vissi að hið sanna vald, vald kærleikans, myndi sigra að lokum. Þannig var það sem virtist heimska og veikleiki við fyrstu sýn, nefnilega sonur Guðs að deyja á krossinum, í raun hvorki heimska né veikleiki, heldur viska og vald Guðs, viska og vald kærleikans, sem birtist í upprisunni frá dauðum, þegar bölvun breyttist í blessun, dauði í líf.

En hvað með okkur í dag? Hvert er hið raunverulega vald og hin raunverulega viska í okkar samtíma? Af fréttum og umræðum í samfélaginu má ráða að við séum upptekin af því að valdið felist í því að deila og drottna. Að við göngum út frá því að þeir sem hafi valdið og viskuna, geti tekið ákvarðanir fyrir okkur hin, og geti beitt valdi sínu – í eigin þágu.

Ef við aftur á móti skoðum söguna, sjáum við að þar má finna mörg dæmi um valdið sem kemur á óvart; um hið raunverulega vald og hin raunverulega viska sem birtist þar sem við áttum alls ekki von á því. Þetta er það vald og sú viska sem hefur aftur og aftur breytt gangi sögunnar, þrátt fyrir að virðast við fyrstu sýn alls ekki líklegt til stórræða. Mig langar að nefna tvö dæmi, annað frá miðri 19. öld, en hitt úr samtíma okkar.

Það fyrra er af unglingsstúlku sem var fædd í kringum miðja 19. öld, fyrir tæpum 170 árum síðan, fátækri sveitastelpu, sem sveið það óréttlæti sem fólst í því að stelpur bjuggu ekki við sömu kjör og strákar; höfðu t.d. ekki sömu möguleika á menntun og strákar á þeirra aldri. Þessi stelpa hét Bríet Bjarnhéðinsdóttir, en hún átti síðar eftir að verða leiðandi í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna og réttindum stúlkna og kvenna til að ganga í sömu skóla og drengir og karlar; til að eiga sama rétt á námsstyrkjum og mega gegna opinberum embættum, sem karlar máttu einir gegna allt til ársins 1911. Það er svolítið erfitt fyrir okkur að setja okkur í spor Bríetar, okkur sem eigum því að venjast að stúlkur og drengir hafi sömu réttindi til náms, að konur hafi kosningarétt og megi gegna opinberum embættum. En það er engu að síður hollt fyrir okkur að vita að það kostaði baráttu, það kostaði svita og tár að fá þessi réttindi. Þegar Bríet byrjaði að skrifa um kynjamisréttið í íslensku samfélagi, strax á unglingsaldri, voru fáir tilbúnir að gefa gaum að því sem hún var að segja. Hún tilheyrði jú þeim helmingi þjóðarinnar sem ekki naut þess sem við í dag köllum sjálfsögð mannréttindi. En hún var ekki tilbúin að gefast upp. Hún skrifaði síðar fyrstu greinina sem birt var á prenti á Íslandi eftir konu. Hún var líka fyrsta konan til að halda opinberan fyrirlestur hér á landi, þar sem hún fjallaði um óréttlætið sem íslenskar konur höfðu búið við um aldir. Þó að Bríet fengi ekki miklu áorkað ein og sér, átti hún eftir að hafa gífurleg áhrif og hrífa aðra með sér, konur og karla, sem voru tilbúin til að berjast með henni gegn óréttlæti kynjamisréttisins. Engu að síður var hún frumkvöðull, hún hóf upp raust sína og gaf þannig öðrum kjark til að ganga til liðs við sig í baráttunni fyrir betri heimi. Þetta var erfið barátta og margir tilbúnir að beita valdi sínu til að stoppa Bríeti og þau sem stóðu með henni í baráttunni. Við vitum ekki hvað hefði gerst ef Bríet hefði ekki haft kjark til að stíga fram og benda á óréttlætið og gera kröfur um breytingu. Það er ótrúlegt að það skuli aðeins vera eitt hundrað ár síðan konur á Íslandi fengu rétt til að kjósa til Alþingis og tæplega 100 ár síðan fyrsta konan settist á Alþingi. Við eigum þessa róttæku breytingu að þakka þeim sem stigu fram og stóðu með Bríeti. Eins og svo oft áður skilaði samstaðan árangri.

Síðara dæmið sem ég vil nefna í þessu samhengi er af annarri unglingsstúlku, sem ofbauð óréttlætið og aðgerðarleysið og ákvað að gera eitthvað í málunum. Þið hafið efalaust látið ykkur detta í hug að ég væri að tala um Gretu Thunberg, sem er alveg rétt. Það er í raun með ólíkindum að fyrir aðeins einu og hálfu ári hafi enginn, fyrir utan hennar nánasta hring, vitað hver hún var. Við erum að tala um stelpu sem hafði átt erfitt uppdráttar í lífinu, þar á meðal í skólanum, þar sem hún varð fyrir miklu einelti. Hún var sem sagt ein og vinalaus þegar hún byrjaði skólaverkfallið sitt í ágúst árið 2018. Hver hefði trúað því sem átti eftir að gerast í kjölfarið? Allavega ekki foreldrar hennar, sem óttuðust um Gretu og afleiðingarnar af því að hún ákvað að hætta að fara í skólann. Það sem byrjaði sem ein stelpa, sitjandi fyrir utan þinghúsið í Stokkhólmi til að mótmæla aðgerðarleysi stjórnvalda, er nú orðið að hreyfingu sem teygir sig út um allan heim, einnig hingað til lands. Ein og sér hefði Greta aldrei haft þessi áhrif. Ein og sér var hún valdalaus; hún hafði ekkert bakland, hún hafði engin völd, í hefðbundnum skilningi þess orðs. En vegna þeirra sem stigu fram og stóðu með henni hefur hún haft meiri áhrif á umræðuna um hamfarahlýnun og hættuna sem henni fylgir, heldur en nokkur annar einstaklingur. Í hreyfingunni sem hefur orðið til í kringum hina sextán ára Gretu Thunberg höfum við fengið að sjá hvers samstaðan er megnug og hverju við fáum áorkað ef við stöndum saman.

Aftur og aftur erum við minnt á að hið sanna vald og hin sanna viska heldur áfram að koma okkur á óvart. Daglega gefst okkur tækifæri til að kjósa vald kærleikans, sem virðist svo oft vera valdalaust og veikt. Daglega fáum við tækifæri til að standa saman gegn óréttlætinu, illskunni og ofbeldinu í okkar samfélagi. Daglega erum við, hvert og eitt, kölluð til fylgdar við kærleikann, réttlætið og sannleikann. Það er mikilvægt fyrir okkur að muna, að með því að svara kallinu, með því að ganga til liðs við kærleikann, réttlætið og sannleikann, getum við haft áhrif á nánasta umhverfi okkar og um leið haft áhrif á stóru myndina. Þannig getum við, ég og þú, lagt okkar að mörkum til þess að skapa betri og réttlátari heim.

Dýrð sé Guði, skapara okkar og endurlausnara, og heilögum anda sem dvelur á meðal okkar. Amen.