Dr Jim Antal er prestur í United Church of Christ og talsmaður kirkjunnar varðandi loftslagsmál

Bregðumst við með trúfesti, von og mótspyrnu

Við skulum biðja: Megi orð mín vera þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns koma fram fyrir þig, Drottinn, bjarg mitt og frelsari.

Í minni kirkjudeild eigum við máltækið, Guð talar enn – Og þannig vil ég segja við ykkur: Náð sé með ykkur og friður í nafni Guðs sem talar enn – sem elskar okkur eins og við erum… og elskar okkur of mikið til að leyfa okkur að halda áfram að vera eins og við erum.

Ég þakka Guði fyrir tækifærið að fá að vera með ykkur hér í dag, og þakka sr. Örnu og biskupnum ykkar fyrir að bjóða mér. Þetta er fyrsta heimsókn mín til Íslands og ég verð að segja að þið eruð einstök þjóð og Guð hefur falið ykkur að vera umsjónarfólk yfir alveg einstöku landi! Þakka ykkur fyrir að vera til fyrirmyndar í umhyggju ykkar fyrir láði og legi.

Í dag langar mig að deila með ykkur sjónarhorni Bandaríkjafólks á loftslagsbreytingarnar og hversu mörg okkar í Bandaríkjunum erum að bregðast við þessum vanda full af vonarríkri mótspyrnu.

Ég þjónaði sem safnaðarprestur í 20 ár, fyrst 10 ár í Ohio og síðan í Massachusetts. ÁRið 2006 fékk ég köllun til að leiða United Church of Christ í Massachusetts, þar sem ég hafði umsjón með 350 söfnuðum, 900 prestum og u.þ.b. 80.000 safnaðarmeðlimum. Þannig að ég naut þeirra forréttinda að prédika í nýrri kirkju á hverjum sunnudegi. Þar sem ég er einnig talsmaður UCC varðandi málefni loftslagsbreytinga á landsvísu, hef ég prédikað um þetta málefni í yfir 200 kirkjum um gervöll Bandaríkin. Á eftir, þegar tækifæri gefst til að spjalla saman, skal ég með gleði svara þeim spurningum sem þið kunnið að hafa, og ég hlakka líka til að heyra hver ykkar vitnisburður er.

Textar dagsins bjóða okkur upp á ögrandi grundvöll fyrir samræður okkar. Spámaðurinn Jesaja er ómyrkur í máli:

Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.

Aðvörunarorð Sameinuðu þjóðanna og margra hugrakkra loftslagsvísindamanna eru í samhljóðan við þessi orð. Allar skýrslur sýna fram á að ef við höldum áfram eins og við erum vön, munum við eyðileggja sköpun Guðs.

Trúarleiðtogar fjórðungs alls heimsins eru sammála. Ég hef heyrt þetta af vörum leiðtoga Réttrúnaðarkirkjunnar, Bartólómeusar Patríarka, og Frans páfi hefur tvisvar kallað til sín leiðtoga stóru olíufyrirtækjanna, s.s. Exxon Mobil, og BP til að segja þeim í eigin persónu að mannkynið stendur frammi fyrir stórkostlegri áskorun og að það sé á ábyrgð þeirra, sem stjórnenda þessara fyrirtækja, að grípa þetta stórkostlega tækifæri til að færa okkur yfir í hreina og endurnýjanlega orku. Hættið að gera illt. Lærið að gera gott.

En þetta útheimtir það að þessi fyrirtæki geta ekki haldið áfram að gera eins og þau eru vön. Þau myndu þurfa að afsala sér yfir 100 milljörðum Bandaríkjadala sem þau fá árlega í styrki, frá Bandaríkjunum og Evrópusambandinu eingöngu. Þau myndu einnig þurfa að láta óhreyfðar þekktar olíu-, kola- og gasnámur og afsala sér þannig yfir 33 trilljóna dollara hagnaði á næstu 25 árum.

HIn alþjóðlega hreyfing sem er orðin til í kringum það að hætta fjárfestingum í olíuiðnaðinum fer einmitt fram á þetta. Á þeim sex árum sem hafa liðið síðan kirkjuþing/prestastefna UCC varð fyrst allra landssamtaka og fyrst allra trúarsamtaka í Bandaríkjunum til að samþykkja að hætta að fjárfesta í olíuiðnaðinum, hafa fjárfestar hreinsað út úr hlutabréfasafni sínu andvirði 11 trilljón dollara hlutabréfa sem lágu í olíu, gasi og kolum.

Ég veit að það er erfitt að hlýða orðum Jesaja um að hætta að gera illt og læra að gera gott, þegar þú tilheyrir ábatasamasta iðnaði sögunnar. En ef Frans páfi og Bartólómeus patríarki hafa rétt fyrir sér þegar þeir halda því fram að það sé synd að eyðileggja sköpun Guðs, þá er það líka synd að græða á þeirri eyðileggingu.

Við þurfum öll að breyta því hvernig við erum vön að gera hlutina, á ólíkan hátt, til að ,,læra að gera gott”. Við þurfum að fækka flugferðum, og kolefnisjafna þegar við þurfum að fljúga. Hjóla meira. Notast við rafmagnsbíla. Borða minna kjöt. Hvert og eitt okkar þarf að taka sig á í þessum efnum.

En við verðum líka að breyta kerfinu – eitthvað sem sístækkandi undiralda aktívisma í Bandaríkjunum og víðar í heiminum hefur bent á. Þegar ég var handtekinn fyrir utan Hvíta húsið árið 2011 ásamt 1.253 öðrum, fyrir að mótmæla lagningu Keystone XL olíulagnarinnar, hafði ég enga hugmynd um hvort þetta myndi skipta einhverju máli. En ég get sagt ykkur að Keystone XL lögnin hefur enn ekki verið byggð og við höfum komið í veg fyrir að meira en tveimur milljónum tunna af hráolíu hafi verið dælt upp og brennt. Og ekki nóg með það, heldur samþykkti þjóðarþing UCC ályktun sem hvatti trúað fólk til ,,að standa gegn hvers konar uppbyggingu í innviðum olíuiðnaðarins.”

Önnur mikilvæg kerfisbreyting: Það kom engum bandaríkjamanni á óvart þegar núverandi forseti dró okkur út úr Parísarsamkomulaginu. En það hefur komið mörgum okkar ánægjulega á óvart að ,,Græna samkomulagið” svokallaða (New Green Deal – Þingsályktunartillaga sem liggur fyrir Bandaríkjaþingi um umhverfismál) hefur fengið sífellt betri og betri viðtökur hjá meirihluta Bandaríkjamanna.

Græna samkomulagið tekur m.a. á umhverfisrasisma, ójöfnuði og öðrum birtingarmyndum loftslagsóréttlætis. Það dregur fram það sem frumbyggjar víða um heim hafa alltaf vitað, við eigum aðeins möguleika á framtíð með því að gera okkur grein fyrir því að manneskjan og náttúra eru bundnar órjúfanlegum böndum og háðar hvor annarri. Það heldur einnig á lofti því siðferðislega gildismati sem frumbyggjasamfélög byggja á, að við þurfum að gera okkur grein fyrir hvaða áhrif hegðun okkar hefur á komandi kynslóðir. Þannig stendur Græna samkomulagið styrkum fótum í hugmyndafræði vistfræðinnar um það að allir hlutir tengjast og kallar á samstöðu – Samstöðu sem gengur þvert á stétt, kynþátt, menningarheima, kynslóðir og tegundir.

Þessa samstöðu getum við séð í pistli dagsins úr Postulasögunni. Þetta er auðvitað saga um það hvernig Pétur læknar lamaðan mann í hinu kraftmikla Jesú nafni. En horfum á vini mannsins. Þeir báru vin sinn á hverjum degi til musterisins.

Alveg eins þurfum við, sem erum ekki eins hrjáð vegna loftslagsbreytinga að standa með fólkinu á Bahama eyjum og með þeim sem hafa glimt við skógarelda mánuðum saman í Síberíu, Alaska og Brasilíu og með öllum manneskjunum um allan heim sem þjást vegna þessara loftslagshamfara.

En snúum okkur nú að sögunni í guðspjallinu. Þar hittum við fyrir föður flogaveiks drengs sem elskar son sinn það mikið að hann leitar örvæntingarfullur hjálpar fyrir hann. Í hans menningarheimi var ekki talað um slíka hluti og faðirinn gefur færi á sér þegar hann vogar sér að segja sannleikann um veikindi sonarins og það hvernir lærisveinunum mistókst að lækna hann. Og þegar hann mætir Jesú gengur hann enn lengra í sannsöglinni og játar: Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni!. Og það er þessi játning sem gerir lækningu mögulega.

Það breytti öllu að segja sannleikann. Það hafði jafnvel áhrif á Jesú og breytti ergelsi hans, reiði og örvæntingu, í samúð. Við þurfum að vera óhrædd við að segja sannleikann. Jafnvel þótt við gefum færi á okkur með því. Jafnvel þótt það feli í sér játningu.

En það getur verið erfitt að segja sannleikann. Í Bandaríkjunum hefur sannleikurinn um loftslagsbreytingar verið þaggaður niður markvisst með því að varpa rýrð á vísindi og gera loftslagsvísindamenn tortryggilega. Þessi herferð á rætur sínar að rekja til aðferða sem voru notaðar af tóbaksframleiðendum á 8. áratugnum og snerust um að afneita því að tóbaksreykingar væru krabbameinsvaldandi. Hún hófst upp úr 1980 þegar olíufyrirtækið Exxon réð til sín fremstu loftslagsvísindamenn heimsins sem tilkynntu stjórn fyrirtækisins að loftslagsbreytingar væru raunverulegar, og brennsla á jarðefnaeldsneyti væri aðalorsökin; að breytingarnar væru stigversnandi og myndu verða ennþá verri í kringum 2020, því þá yrðu höfin mettuð af mengun. Stjórn Exxon þakkaði vísindamönnunum pent, losaði sig við þá, stakk skýrslu þeirra undir stól og hóf áratugalanga, vel fjármagnaða herferð sem afneitaði hinum vísindalegu niðurstöðum. Í ofanálag gengur alríkisstjórnin svo langt að ritskoða heimasíður hins opinbera og eyðir þar út orðum eins og ,,loftslagsbreytingar”.

En, Sannleikurinn mun gera ykkur frjáls, eins og stendur í Jóhannesarguðspjalli. Og nú standa yfir málaferli þar sem olíufyrirtækin eru sökuð um misferli með því að halda leyndum upplýsingum og villa um fyrir fjárfestum.

Það sem Greta Thunberg kennir heimsbyggðinni er einmitt það að sannleikurinn gerir okkur frjáls. Þetta er það sem hún sagði við ríkasta fólk veraldar í Davos í Sviss:
,,Við verðum að breyta nánast öllu í samfélaginu. Því stærra kolefnisfótspor sem þú skilur eftir, þeim mun fleiri siðferðislegar skyldur hefur þú. Því fleiri áheyrendur sem þú hefur, þeim mun meiri ábyrgð berð þú. Ég vil ekki vonina þína! Ég vil að þú skynjir óttann sem ég finn til á hverjum degi. Og síðan vil ég að þú bregðist við eins og í hættuástandi. Ég vil að þú bregðist við eins og húsið þitt sé alelda. Því þannig er það.”

Tugir milljóna ungra aðgerðasinna sýna nú umheiminum nýja tegund vonar. Ég kalla hana vonarríka mótspyrnu. Í þeirra augum á vonin ekkert skylt við bjartsýni. Þau gera sér grein fyrir að þau hafa enga stjórn á hina ógnvænlegu flóðbylgju loftslagsvárinnar. Fyrir þeim er vonin ekki einhver framtíðarsýn, heldur birtist hún hér og nú.

Í Bandaríkjunum hefur hreinskilni þeirra vakið skilning presta, heilbrigðisstarfsfólks, fólks í menntageiranum, fyrirtækjaleiðtoga og alla vega sumra stjórnmálamanna á því að við þurfum að hlú að þessari von. Von sem snýst um aðgerðir. Von sem er ekki bara einhver bjartsýni. Von sem snýst ekki um framtíðarsýn. Heldur von sem birtist hér og nú. Von sem kallar á aðgerðir. Aðgerðir sem eru ómögulegar án vonar.

Guð lofar okkur ekki árangri. En Guð lofar því að styðja okkur í köllun okkar.
Það er svona sem við mótum framtíðina – skrifum söguna: Með því að sjá fyrir okkur nýja möguleika og vinna að þeim eins og þeir séu óumflýjanlegir. Og á meðan þurfum við að hafa vísdómsorð Gandhis í huga þegar hann sagði: Í fyrstu hunsa þeir þig, síðan hlæja þeir að þér, síðan berjast þeir gegn þér, síðan sigrar þú.

En munum eitt – Gandhi setur engin tímamörk! Mörg okkar eigum ekki eftir að lifa það að sjá ávexti erfiðis okkar við að vernda Guðs góðu sköpun. En við vitum að ef við sýnum hugrekki og siðferðilegt fordæmi munum við veita öðrum innblástur með hjálp Heilags anda.

Og ég segi við ykkur: Látið líf ykkar bera merki vonarríkrar mótstöðu í allri viðleitni ykkar:

• Verið rótföst í kærleikanum
• umlukin þakklæti
• innblásin af gleði
• leidd áfram af undrun
• sífellt leitandi sannleikans

Því sannleikurinn mun gera ykkur frjáls – frjáls til að nýta gjafir ykkar og hæfileika til fulls í samvinnu við aðrar manneskjur – leidd áfram af Heilögum anda – til að vernda hina dásamlegu gjöf Guðs, sköpunina. Amen.