Verkið Móðirin eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur hefur verið sett upp í kapellu Grafarvogskirkju. Kristín mun segja frá verkinu í kapellunni á mánudaginn 12. nóvember kl. 17:00. Björg Þórhallsdóttir sópran og Hilmar Örn Agnarsson organisti flytja tónlistaratriði.

Um verkið:
Verkið Móðirin fjallar um þann jarðneska veruleika sem við þekkjum og æðri veruleika sem við leitumst við að finna. Jarðbrúni liturinn vísar til ilmandi moldarinnar, það er jörðin sem við komum frá og hverfum til. Gullsaumurinn og upphafin blómsköpin eru eins og línur milli stjarna á himinfestingunni um hánótt og breiða úr sér. Þannig sameinar verkið himinn og jörð, hið andlega og hið veraldlega.

Með saumuðu veggteppi er vísað til aldagamallar hefðar kvenna og hannyrða. Konur saumuðu og sýndu þar með stétt sína og stöðu, hvort sem var að vefa veggteppi fyrir kalda hallarveggi, gullsaum fyrir kirkjuna, eða staga í sokka og sauma allt sem þurfti fyrir heimilið. Hversu margar konur hafa ekki saumað út rósir?
Við þekkjum flest klukkustrenginn, útsaumuð mynd sem féll af hógværð inn í þröngt bil einhverstaðar til hliðar á heimilinu, gjarnan milli dyra.

Myndmál klukkustrengsins Móðirin, krefst allrar þeirrar stærðar sem möguleg er og er löngu vaxin uppúr hógværðinni að sitja hljóð til hliðar. Verkið tekur sér stórt pláss því umræðan sem það skapar er mikilvæg í nútímasamfélagi. En það býr einnig yfir mýkt andlegra sanninda, jafnvægis, sáttar og kærleika.