Boðið verður upp á námskeið í draumavinnu í Grafarvogskirkju næstu 5 þriðjudagskvöld, 16. janúar til 13. febrúar, frá 20 – 21:30 öll kvöldin.
Námskeiðið fjallar um drauma, eðli þeirra og tilgang, og hvernig hægt er að vinna með þá í daglegu lífi sér til andlegrar uppbyggingar. Byggt er á kenningum C.G. Jungs um djúpsálarfræði og drauma, auk þess sem fjallað er um drauma í Biblíunni og kristinni trú, sem og í íslenskri menningu. Þar að auki verður mikil áhersla á draumavinnu, þ.e. hópavinnu þar sem fólk leggur fram drauma og vinnur með þá í samvinnu við hópinn.
Námskeiðið byggist þannig upp að í fyrsta skipti verður inngangsfyrirlestur og kynning á námskeiðinu. Næstu fjögur skipti verða síðan stuttir fyrirlestrar um ákveðin þemu, en aðaláherslan verður lögð á hópavinnu þar sem fólk hjálpast að við að ráða drauma hvers annars eftir ákveðnum aðferðum. Námskeiðið er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Umsjónarkona námskeiðsins er sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir, prestur í Grafarvogskirkju. Sr. Arna Ýrr hefur áralanga reynslu í að nota draumavinnu í sálgæslu og hefur sótt sér fræðslu og þjálfun í þeim efnum hjá reyndum aðilum. Þar að auki hefur hún aflað sér aukinnar menntunar og þjálfunar í sálgæslu og viðtalstækni.

Markmið námskeiðsins:
• Að fólk fái yfirsýn yfir ýmsar hugmyndir og kenningar um svefn og drauma
• Að fólk fái þjálfun í að ráða og vinna með sína eigin drauma eftir kenningum djúpsálarfræðinnar.
• Að kynna fyrir fólki hin ýmsu draumatákn og ólíka merkingu þeirra.
• Að þjálfa fólk í að muna drauma sína og skrá þá með ólíkum aðferðum.

Skráning á námskeiðið er hjá arna@grafarvogskirkja.is og er þátttakendafjöldi takmarkaður.