Já, komið þið sæl og blessuð. Af okkur fjölskyldunni er allt dásamlegt að frétta. Núna eru við búin að vera hérna í rétt rúma 3 mánuði og allt gengur vel, lífið í Noregi er farið að taka á sig nokkuð fastar skorður og allt er að komast í eðlilegt horf.

Eldri börnin tvö, Steingrímur Ingi og Friðbjörg Anna, byrjuðu í skólanum strax daginn eftir að við komum hingað um miðjan janúar, en sá yngsti, Rúnar Haukur, byrjar á leikskólanum í ágúst. Börnin eru afar glöð og þau eldri eru búin að eignast fullt af vinum og vinkonum og er ávallt fullt hús hjá okkur af börnum.  Rúnar Haukur er heima á daginn með Steina afa sínum sem flutti með okkur til Noregs. Hann er afar ánægður með afa sinn og spjalla þeir heilmikið saman á daginn, um heima og geima.

Okkur hjónunum gengur vel í okkar störfum. Erla vinnur sem sjúkarþjálfari í Malm, sem er næsti bær við okkur, og þangað er u.þ.b. 12 mín akstur. Ég hins vegar hef tvær skrifstofur (sem samanlagt ná þó ekki stærðinni á skrifstofunni sem ég hafði í Grafarvogskirkju J ), eina á skrifstofu norsku kirkjunnar í Steinkjer (sem er í um 15 mín. akstri frá heimili okkar) og eina á skrifstofu norsku kirkjunnar í Namdalseid (sem einnig er í um 15 mín. akstri frá heimilinu, en í hina áttina).
Starfið í kirkjunum og söfnuðunum gengur vel og höfum við fengið frábærar mótttökur.

Norðmenn virðast vera einstaklega hjálpsamir, kunna svo sannarlega að taka vel á móti fólki, a.m.k er það okkar upplifun. Þegar gámurinn kom með búslóðina okkar (40 feta gámur) þá var svo mikill snjór í götunni okkar og mikil þrengsli að flutningabíllinn komst ekki inn götuna. En norðmenn deyja ekki ráðalausir, því bílnum með gámnum var lagt á stórt bílaplan, nokkurn spöl frá húsinu, þangað kom svo minni flutningabíll og traktor með kerru sem er lítið minni en Laugardalslaugin og svo var öllu skúbbað úr gámnum í bílinn og á kerruna og flutt að húsinu okkar. Ekki vorum við ein við þetta, heldur spruttu upp um 30 manns, nágrannar okkar og aðrir, og hjálpuðu okkur. Þetta kláraðist á innan við 2 klst, sem var viðmiðið, því annars hefðum við þurft að greiða bílstjóra flutningabílsins yfirvinnu. Eftir þetta var svo öllum boðið í kaffi og vöfflur til eins af nágrönnum okkar.

Núna er vorið komið hér í Noregi, fuglasöngur út um allt og um 70.000 gæsir hafa viðkomu í þorpinu okkar á leið sinni á varpstöðvar í Norður Noregi og á Svalbarða. Grasið farið að grænka töluvert, tré farin að laufgast og börnin leika sér úti alla daga, og trampólín komið í garðinn. Lífið leikur við okkur hér í Noregi, en það veit Guð að við vissulega söknum Íslands.

Kærar kveðjur frá Beitstad,
Gunni, Erla, Steingrímur Ingi, Friðbjörg Anna, Rúnar Haukur og Steini afi.