Hvar liggja skilin í milli raunveruleika og hlutverka?

Líf okkar er lagskipt tilvera. Þar raðast reynsla hvers tímabils ofan á hið fyrra, svo úr veður veruleiki sem við þekkjum og kunnum á. Við höfum lært öll hlutverkin og aðrir í kringum okkur treysta því að við förum ekki út af línunni, dettum ekki úr karakter. Stundum finnst okkur við stödd í miðju leikverki og gegnum þar burðarhlutverki fyrir sýningu. Við erum ekki með aðalhlutverkið, heldur meira svona hlutverk sem styður við aðalpersónurnar allan tímann. Okkur finnst heldur langt liðið frá þeirri tíð er við sjálf vorum númer eitt. Þá var nú gaman að lifa. Ekki að okkur finnist ekki gaman að lifa, við elskum fólkið okkar meira en lífið sjálft… og þar liggur hundurinn grafinn.

Sjálfið festist í ysta lagi raunveruleikans

Bara að við kæmumst þarna inn undir, nær sjálfum okkur. Stundum vitum við varla hver við erum lengur, hvað þá hvert við erum að fara með líf okkar. Kannski finnst okkur við vera mjög fær í að vera þau sem við erum orðin, en ekki þau sem við viljum vera. Okkur finnst kannski við þurfa að gera eitthvað í málinu en vitum ekki hvað. Kannski þurfum við að breyta um mataræði eða kaupa kort í líkamsrækt? Samt vitum við að við höfum svo oft prufað það án þess að það hafi teljandi áhrif. Við gerum okkur ekki grein fyrir því að öll okkar helstu bjargaráð til þessa hafa beinst að ystu lögum lífsins. Hvernig í ósköpunum eigum við að komast að kjarnanum, tilganginum með veru okkar hér?

Rútínubundið og smækkað líf

Bara að allt sé í réttum skoðum, þá líður okkur vel. Bara að heimilið sé hlýlegt, að við mætum í ræktina, sjáum nýjustu kvikmyndina, börnunum líði vel, makinn skaffi vel og sinni sýnu hlutverki hjónalífsins. En jafnvel þótt allt sé það göfugt, finnum við hve auðvelt okkur reynist að fara gegnum það líkt og um rullu í leikriti væri að ræða. Kannski er það allt í lagi, framan af a.m.k. en til lengdar gæti okkur þótt það verða innantómt og jafnvel tapa merkingu sinni. Það er þá sem okkar innri maður fer að banka upp á og reyna að gera sig gildandi í lífi okkar. Það er þá sem við sjáum að tilgangurinn er eitthvað miklu meira og dýpra en það að koma börnum til vits og ára. Við sjáum að uppeldið og hjónalífið eru hlutverk, en ekki tilgangurinn með lífinu. Við verðum ringluð.

Að fletta ofan af margskiptu lagi líðandi stundar

Ef við viljum leita merkingar með líf okkar, finna tilganginn, verðum við að gefa heilanum rými til að eiga stefnumót við sjálfan sig.  Við finnum hversu brýnt það verkefni er mitt í ringulreið líðandi stundar. Við verðum að opna fyrir rými til að safna okkur saman, fletta ofan af lagskiptingu þeirrar tilveru sem við höfum skapað okkur og kynnast okkur upp á nýtt. Til þess að það megi verða þurfum við að tileinka okkur nýtt hugarfar. Gjörhygli er þýðing á enska orðinu mindfulness og er hugtak sem á sér ævaforna sögu, enda hefur leitin að sjálfi mannsins fylgt honum frá örófi alda. Hún er sú andakt sem við þörfnumst til að nálgast hið heilaga í tilveru okkar, verkfærið sem opnar á fallega andartakið okkar, núið sem Jesú talar um þegar hann bendir á himnaríkið sem er hér og nú.

Að hafa hjartað heima á þessu andartaki

Þótt Jesús sé einhver besta fyrirmynd sem hægt er að hugsa sér varðandi lífsafstöðu hins vökula hjarta, þá fann hann hana ekki upp. Í gegnum aldirnar hefur austurlensk speki lagt áherslu á gjörhygli. Kínverska táknið fyrir gjörhygli er samsett úr þremur táknum. Eitt táknið stendur fyrir núverandi augnablik, annað fyrir hjarta og hið þriðja fyrir heimili. Aðferðin er fólgin í því að grandskoða sjálfið í andartakinu og reyna að skilja hvernig hugurinn virkar. Markmiðið er að þroska með sér nærandi og styrkjandi eiginleika á borð við meðvitund, innsæi, visku, samkennd og jafnaðargeð.

Tökum af skarið og lærum að tileinka okkur núið!

Við ætlum að ganga saman veginn í áttina að fallega núinu okkar. Við munum hjálpast að við að fletta ofan af lagskiptri tilveru líðandi stundar og finna samhljóm hjartsláttarins og lífsins. Við ætlum að hittast í Grafarvogskirkju þrjú miðvikudagskvöld í maí, kl. 20 – 21:30 og byrjum miðvikudagskvöldið 11. maí n.k. Allir velkomnir (miðað við 18 ára og eldri) og að sjálfsögðu öllum að kostnaðarlausu. J Nánari upplýsingar veitir sr. Lena Rós á netfanginu srlenaros@grafarvogskirkja.is

[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]