Annar sunnudagur í nóvember er kristniboðsdagur kirkjunnar. Þá gefst tækifæri til að minnast kristniboðsins sérstaklega og taka við fjárframlögum því til stuðnings.Við megum ekki gleyma því að kristnir söfnuðir í Kenýu og Eþíópíu eru til komnir vegna gjafmildi og örlætis og fyrirbæna íslenskra kristniboða og kristniboðsvina. Tökum undir með því fólki með fjármunum okkar og fyrirbænum! Kristniboðsfélögin hafa nú í meir en áttatíu ár gegnt því mikilvæga hlutverki að minna kristni landsins á kristniboðsköllun sína. Það málefni þarf að verða sjálfsagður þáttur í starfi og vitund allra þjóðkirkjusafnaða, og í raun ætti hver sunnudagur árið um kring að vera ,,kristniboðsdagur“ í þeim skilningi.  Undanfarið hefur verið unnið að því að mynda safnaðatengsl, vinatengsl, milli íslenskra safnaða og safnaða í kristniboðsakrinum.  Það er afar gleðilegt til að vita og ég hvet presta til þess að vinna því brautagengi í sínum sóknum.  Annan sunnudag í nóvember gefst sérstakt tækifæri til að lyfta kristniboðinu fram í guðsþjónustum.  Ég bið presta að nýta það tækifæri og hvetja söfnuði sína til að láta fé af hendi rakna til íslenska kristniboðsins.
Í Guðs friði
Karl Sigurbjörnsson