Listin að gráta í kór er fyrsta kvikmynd danska leikstjórans Peter Schønau Fog í fullri lengd. Hún hlaut Kvikmyndaverðlaun Þjóðkirkjunnar sem voru veitt í annað sinn á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík 2007.

Listin að gráta í kór segir frá Allan sem er ellefu ára drengur að vaxa úr grasi í Danmörku snemma á áttunda áratugnum. Tilveran er hvorki auðveld né einföld. Stóri bróðir er fluttur að heiman. Pabbinn er sígrátandi og hótar reglulega að fremja sjálfsvíg. Allan lítur upp til föður síns og vill gera allt til að gleðja hann og hjálpa fjölskyldunni. Því skilur hann ekki hvers vegna mamman tekur hótanirnar ekki alvarlega eða hví stóra systir er í vaxandi uppreisn og virðist ekki þola föður þeirra. Með því að bera fram skuggalegt söguefni í gegnum persónu hins unga Allan tekst leikstjóranum Fog að leiða saman húmor, sorg, ofbeldi og bannhelgi innan þessarar trufluðu fjölskyldu á einkar eftirminnilegan hátt í mynd sem hefur vakið mikla athygli og verið margverðlaunuð á kvikmyndahátíðum.