Unglingakórinn býr sig nú undir heimferð. Í gær var farið í Mall of America og auðvitað tóku þær lagið. Sjá meir á vefseli kórsins. Ferðin hefur verið hin viðburðaríkasta og nú hillir undir heimferð.

FERÐASAGA

12. júlí 2005

Síðasti heili dagurinn í Bandaríkjunum var tekinn snemma. Stúlkurnar vaktar kl. 07:30. Andy var mættur kl. 09:00 stundvíslega. Þá voru einnig mættir fimm drengir úr Drengjakórnum ásamt Mary Jo. Þetta fólk fór með okkur í Mall of America. Þangað er klukkutíma langur akstur frá hótelinu okkar. Þessi verslunarmiðstöð er gríðarlega stór, sú stærsta í Bandaríkjunum með yfir 300 verslunum og fyrirtækjum. Andy leiddi hópinn í byrjun, enda öllum hnútum kunnugur. Við byrjuðum á því að fara í Apple búðina, eftir að hafa keypt miða í Camp Snoopy skemmtigarðinn og Underwater Adventures Aquarium. Það var mikið verslað í Applebúðinni (m.a. 14 Ipot) og að lokum söng kórinn fyrir alla viðstadda. Þá skiptust hóparnir og allir hittust síðan kl. 14:00 til þess að fara í Underwater Adventures Aquarium . Þar gengum við í gegnum gríðarstórt rör, sem var umflotið vatni. Fyrir ofan okkur mátti sjá alls kyns furðufiska og hákarla. Þá var þarna ýmsan fróðleik að finna, meðal annars um þær 140 fisktegundir sem lifa í Missisippiánni. En hún er þriðja lengsta fljót í heimi. Á morgun förum við í siglingu á fljótinu áður en við förum út á flugvöll. Það verður hvorki meira né minna en yfir hundrað ára gamalt hjóla- og gufuskip sem verður þar í aðal hlutverki. Stúlkurnar fóru í Snoopy skemmtigarðinn og versluðu. Kl. 19:30 fórum víð á skemmtilegan veitingarstað í Mall of America sem heitir Regnskógurinn. Staðurinn er hannaður eins og skógur með tilheyrandi plöntum og dýrum. Veitingar voru mjög góðar. Eftirrétturinn var í líki eldfjalls, með stjörnuljósi á toppi þess. Gengilbeinurnar komu inn syngjandi með þennan eftirrétt og settu á borðin hjá okkur. Að þessu loknu fórum við heim á hótel. Þegar þangað var komið kvaddi Anna María sér hljóðs og færði organista og kórstjóra gjafir í lok ferðar. Eftir það fóru allir að pakka niður. Á morgun verður vakið kl. 08:00. Andy kemur og sækir okkur um kl. 10:00. Bátsferðin verður um hádegisbil og stendur yfir í einn og hálfan tíma. Eftir það dólum við okkur út á flugvöll og þurfum að vera komin þangað um kl. 16:00. Myndir

11. júlí 2005

Sólin skein inn um gluggana í morgun er stúlkurnar voru vaktar kl. 08:30. Enn á ný fagur og hlýr dagur í Minnesota. Að morgunverði loknum kom Andy á rútunni góðu um kl. 10. Við héldum af stað skömmu síðar og var leiðinni heitið til Albertville. En þar er stórt og mikið „Outlet,“sem telur tugi verslana. Þarna eru öll helstu merkin á útsöluverði. Það munar oftar en ekki helmingi á verði þeirrar vöru sem keypt er. Kortin voru straujuð í gríð og erg, enda eru stúlkurnar sérlega áhugasamar að fara í verslanir og kynna sér nýjustu tískuna. Um fimmleytið var haldið af stað frá Albertville og farið í höfuðstöðvar Drengjakórsins, þar sem glæsileg grillveisla beið okkar. Boðið var upp á grillaðar pylsur og hamborgara, ásamt grænmeti, snakki og drykkjum. Þá voru einnig djúpsteiktar kjúklingabringur, sem faðir eins drengsins, steikti utandyra á prímusi. Þetta er ágætis hugmynd fyrir þá sem fara í tjaldútileigu í sumar, til dæmis um verslunarmannahelgina: að djúpsteikja kartöflur (franskar kartöflur), kjúklingbringur, laukhringi eða hvað sem er. Aðferðin er í raun mjög einföld. Stór og góður pottur er settur á prímusinn. Viðurkenndri steikingarolíu er hellt í pottinn og matreiðslan hefst á venjulegan máta. Verði ykkur að góðu!

Þá snúum við okkur aftur að stúlkunum. Maturinn smakkaðist einstaklega vel. Þá var farið í leiki úti á túni í góða veðrinu. Að þessum leikjum loknum komu allir inn og við færðum öllum aðilum gjafir. Þar á eftir höfðum við það mjög skemmtilegt. Elli sló í gegn með gítarleik og söng, stúlkurnar sungu og Ísold söng einsöng. Drengirnir sungu einnig. Andrúmsloftið var frábært og allir glaðir og ánægðir með ánægjulega kvöldstund.

Á leiðinni heim á hótel var komið við í HAGKAUPI þeirra Bandaríkjamanna. Þar keyptum við köku, gos og kirsuber. Þegar við komum upp á hótel var það fyrsta verk Kristínar sem er afar listræn kona, að skreyta fyrrnefndai köku. Það gerði hún afar vel. Kakan var keypt í tilefni af þvi að Sandra á afmæli í dag og Ísold í gær. Þær blésu því báðar á kertin á kökunni. Það ríkti mikil kátína og gleði meðal stúlknanna við þetta tækifæri. Andy og Francis voru með okkar í afmælisveislunni. Þar á eftir fóru allir að sofa. Á morgun er langur og strangur dagur. Mall of America bíður okkar, í allri sinni dýrð.

Myndir

10. júlí 2005

Dagurinn var tekinn snemma og allir vaktir kl. 06:30. Stúlkurnar voru mjög duglegar fara á fætur og gera sig tilbúnar fyrir messu. Hópurinn lagði af stað rúmlega átta, er Andy kom að sækja okkur á rútu Drengjakórsins. Við fórum í kirkju sem heitir: „Central Lutheran Church“ í Elk River. Þessi kirkja er stór og glæsileg og öll aðstaða fyrir safnaðarstarf til stökustu fyrirmyndar. Messan hófst kl. 09:30. Unglingkórinn sá um allan söng í athöfninni við mikinn fögnuð viðstaddra. Sr. Bjarni flutti stutt ávarp og afhenti kertastjaka til kirkjunnar frá Unglingakórnum. Eftir messuna var öllum boðið upp á frábæra kjúklingasúpu með brauði og ís á eftir. Eftir matinn var ekið heim á hótel þar sem stúlkurnar hvíldu sig í rúmlega klukkutíma. Um tvöleytið var farið til Rogers, en þar er kirkja sem hetir: „The Word of Peace – Lutheran Church.“ Þessi kirkja er ekki síðri en sú fyrri hvað varðar alla aðstöðu. Eftir stutta upphitun hófust sameiginlegir tónleikar kóranna tveggja. Stúlkurnar hófu tónleikana eftir stutta kynningu sr. Bjarna. Þá komu drengirnir og sungu af hjartans lyst undir styrkri stjórn Francis Stockwell. Að tónleikunum loknum var boðið upp á pasta og brauð. Þá var öllum aðilum færðar bestu þakkir og gjafir frá Unglingakórnum. Þegar heim á hótel var komið var öllum stúlkunum boðið upp á íspinna í sumarhitanum, en úti fyrir er rúmlega 30 stiga hiti. Stúlkurnar fengu leyfi upp á sportið, að fara í sund í öllum fötunum. Og sumar notuðu meira að segja regnstakkana sína. Afmælisbarn dagsins er Ísold. Hún fékk gjafir frá Kórnum. Afmælisbarn morgundagsins er Sandra. Hún fékk einnig góðar gjafir. Nú stendur til að róa niður liðið í sundinu og ætlar Elli að sjá um það með gítarspili og söng.

Myndir

9. júlí 2005

Eins og fram kemur 8.júlí þá vorum við í aðalstöðvum drengjakórsins í dag þar sem við héldum æfingu fram yfir hádegi. Að henni lokinni buðu þeir okkur uppá hádegismat. Þegar búið var að borða og æfa aðeins meira fórum við uppá hótel þar sem allir hvíldu sig. Kl.16:45 kom Andy á rútu drengjakórsins og fór með okkur í Joseph The Worker kirkjuna þar sem okkur enn og aftur var boðið í mat. Borið var fram Spaghetti með ítalski sósu, salati, brauði og ávaxtasalat í eftirrétt. Drengjakórinn borðaði með okkur og var séð til þess að strákar og stelpur sætu saman við borð. Æft var í kirkjunni fyrir tónleikana og var það sérstök upplifun fyrir okkur að syngja í svona hljómmikilli kirkju. Tónleikarnir gengu mjög vel og vök
tu stelpurnar okkar mikla lukku og fengu mikið hrós. Drengjakórinn stóð sig að sjálfsögðu frábærlega vel og ótrúlegt hversu hljómfagur hann er. Eftir tónleikana var boðið upp á púns og kökur. Allar eru nú komnir í rúm og dvelja í draumaheimi þar til þær verða vaktir kl.6:30 í fyrramálið. Þess má geta í lokin að mjög heitt hefur verið hér hjá okkur í dag yfir 33° C og sumum var verulega heitt á meðan aðrir kunnu vel að meta þennan hita! Myndir

8. júlí 2005

Þegar þetta er skrifað, 9. júlí, erum við stödd í aðalstöðvum Drengjakórsins í Elk River. Klukkan er langt gengin í ellefu fyrir hádegi. Þá er það gærdagurinn sem við ætlum að segja frá, föstudagurinn 8. júlí. Hópurinn fékk sér morgunverð á milli kl. 9:00 og 10:00. Morgunverðurinn er ágætur á AmericInn. Það sem er sérstakt við hann eru vöfflurnar. En hver og einn getur bakað sína eigin vöfflu og fengið sér hlynsíróp eða bláberjasíróp út á. Annars eru stúlkurnar duglegastar við jógúrtið, beyglurnar og brauðið. Kl. 11:30 kom Andy, sem er stofnandi kórsins, á rútu sem er í eigu „Land of Lakes Choirboy´s“. En þessi rúta er 25 ára gömul, smíðuð árið 1980 og er hún merkt kórnum. Stúlkurnar dreymir um að eignast eina slíka, og þá bleika, merkta Unglingakór Grafarvogskirkju. Þess má geta, að Drengjakórinn á tvær rútur.

Hópnum var fyrst ekið á almenningsþvottahús, þar sem við skelltum í nokkrar vélar. Eftir það fórum við á heimili Johns, sem er framkvæmdastjóri kórsins. Hann býr í prýðis húsi, sem hann hefur nýlega gert upp. Þar var okkur boðið upp á brauð, ost, skinku, grænmeti, og drykki. Þetta var matur sem stúkurnar kunnu vel að meta, enda höfðu þær ekki fengið venjulegan brauðost í heila viku. Blue var hundurinn á heimilinu. Hann er af Labrador kyni, svartur, og vingjarnlegur. Stúlkurnar urðu strax vinkonur hans. Eftir að hafa notið gestrisni húsbóndans fórum við aftur í þvottahúsið til þess að sækja fötin sem þá voru orðin þurr og fín. En Anna María, Kristín og Bergþóra höfðu farið í millitíðinni og fært þvottinn úr amerísku þvottvélunum í enn amerískari þurrkara, afar stóra, og erum við ekki á ýkja á neinn hátt.

Eftir þetta var haldið á Kelly´s Farm, sem er einskonar Árbæjarsafn þeirra í Elk River, en mun minna að öllu leyti. Þetta er gamalt bóndabýli, sem saman stendur af stóru og glæsilegu íbúðarhúsi, sem byggt var fyrir 150 árum, hlöðu, verkfærageymslu og glæsilegum kamri. Þá er þarna stór matjurtargarður. 200 metrum frá bóndabýlinu er móttökumiðstöð fyrir þá sem heimsækja safnið. Þar inni er sýningarsalur og verslun. Á þessu safni er starfsfólkið klætt samkvæmt ríkjandi tísku ársins 1850. Þetta starfsfólk var sérlega vingjarnlegt. Stúlkurnar fengu að taka þátt í ýmsum störfum á bóndabýlinu, eins og reyta arfa, sækja vatn í brunninn fyrir utan íbúðarhúsið, taka hey af heyvagni og setja í hlöðu, fóru í 18. aldar leiki, vöskuðu upp, pilluðu baunir og fleira skemmtilegt.

Foreldrafélag Drengjakórsins gaf öllum viðstöddum grillaðar pylsur (ekki eins góðar og SS pylsurnar okkar), snakk, kökur og drykki. Veðrið var yndislegt, 27 stiga hiti og glampandi sólskin. Að því loknu voru haldnir tónleikar á verönd íbúðarhússins. Fyrst söng Drengjakórinn nokkur lög og síðan stigu stúkurnar á stokk og gerðu stormandi lukku. Var klappað vel og lengi. Þá afhentu drengirnir stúlkunum ýmsar gjafir. Hver stúlkla fékk tösku merkta kórnum, sem í voru þessar gjafir. Eftir það var haldið á hótelið. Stúlkurnar fóru um kvöldið í sund, glaðar og ánægðar eftir frábæran dag.

Myndir