Unglingakór grafarvogskirkju heldur í söngferðalag til Bandaríkjanna og Kanada. Nýtt vefsel ferðarinnar hefur verið opnað og mun af því vera hægt að fylgjast með með því helsta sem á daga þeirra drfífur.

Unglingakór Grafarvogskirkju hefur unnið að undirbúningi ferðar til að heimsækja vinakór sinn og Íslendingabyggðir í Kanada, sjá ferðaáætlun. Æfingar og fjársöfnun hefur verið í fullum gangi í allan vetur og nú er stóra stundin að renna upp. Kórinn hefur opnað sérstakt vefsel í tilefni ferðarinnar og þar má fylgjast með því helsta sem á daga þeirra drífur.

Unglingakórinn er í vináttusambandi við bandarískan drengjakór “Land of Lakes Choirboys” frá Elk River Minnesota. Drengjakórinn hefur tvívegis komið í heimsókn til okkar og haldið tónleika í Grafarvogskirkju nú síðast 30. júní 2004 þar sem Unglingakórinn söng ásamt honum.

Nú í sumar mun kórinn leggja upp í langa og mikla söngferð til USA og á Íslendingaslóðir í Kanada. Hann mun endurgjalda heimsókn Drengjakórsins og halda ásamt honum þrenna tónleika í nágrenni Elk River Minnesota ásamt því að syngja við messu í Central Lutheran Church í Elk River.

Í Kanada heldur kórinn tónleika í Winnipeg og Gimli og mun syngja við messu í Árborg. Einnig mun hann heimsækja elliheimili og gleðja eldri borgara með íslenskri tónlist. Á efnisskrá kórsins er að finna nær eingöngu íslenska tónlist og höfum við kosið að kalla þetta verkefni okkar ,,Íslensk tónlist vestur um haf”.