– Prédikun í þremur hlutum um ljós, myrkur og guðsmyndir

Myrkur
Þegar dagarnir eru verstir þá finnst mér ég vera fyrir öðru fólki. Ég veit að lífið þeirra verður svo miklu betra ef ég er ekki með.

Þegar dagarnir eru verstir þá langar mig ekki að segja neinum frá hvað mér líður illa. Það er ekki hægt að tala um það. Mér finnst eins og að það geti orðið enn verra ef ég segi frá.

Suma daga er ég dofin. Ég finn ekkert og vil ekki finna neitt.

Aðra daga er eins og einhver taki utan um hjartað á mér og snúi því og kremji. Það er svo sárt. Ég meiði mig svo mikið að ég verð næstum því lömuð en um leið langar mig að hlaupa í burtu, flýja.

Stundum vildi ég að ég væri bara ein í heiminum því þá þyrfti ég ekki alltaf að þykjast vera glöð. Þykjast vera skemmtileg. Þykjast vera klár. Þykjast og þykjast alla daga, þegar mig langar bara að sofa og vera ein.

Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Einu sinni var ég glöð. Þá kveið ég ekki fyrir að fara í skólann eða fyrir því að vakna eða fyrir því að þurfa að tala við fólk, að hitta fólk.

Ég vil bara vera ein en samt langar mig svo til að einhver sjái hvað mér líður illa. Að einhver horfi í augun á mér og skilji mig. Segi við mig: “Þetta verður allt í lagi”.

En það gerist örugglega ekki. Mamma og pabbi vita ekki einu sinni af þessu. Þau yrðu svo áhyggjufull og leið ef þau vissu.

Ég veit ekki hvað ég á að gera. Einu sinni var mér kennt að tala við Guð og ég hef alveg reynt það. En Guð svarar ekki. Guð gerir ekkert. Guði eru örugglega bara alveg sama.
Hvar er Guð?

Ljós (Þóra Björg Sigurðardóttir)
Ég er ástfangin. Það var eins og hún hafi flogið upp í hendurnar á mér þegar ég átti síst von á því. Ég ætlaði ekkert að fara að verða ástfangin og var bara að hugsa um eitthvað allt annað. En svo sá ég hana. Og hjartað tók kipp. Ég er ekki að ýkja. En það ótrúlegasta af öllu er að hún vildi mig.

Ég get eiginlega ekki lýst þessari tilfinningu, þetta er dásamlegt. Ég vakna alltaf glöð á morgnana og hlakka til að takast á við daginn. Svo skemmir ekki fyrir að það er loksins farið að birta. Það er eins og ég þurfi varla að sofa lengur. Ég er svo yfir mig ástfangin að mig langar til að tala um það alltaf og segja öllum frá því. Það má þakka fyrir að ég skrifi ekki daglega einhverja ástar-statusa á facebook, ég hugsa að ég myndi fá að fljúga útaf vinalistanum hjá mörgum þá. En stundum ræð ég ekki við mig og skrifa eitthvað fallegt á vegginn hjá henni… æj hún er bara svo æðisleg, og ef ég mætti ráða þá værum við saman allan daginn, alltaf.

Efst í huganum núna er bara þakklæti, þakklæti fyrir óvæntu ástina og þakklæti fyrir allt þetta frábæra í kringum mig. Takk Guð fyrir ástina!

Guð er eins og kjóll
Hvernig er kjóllinn á litinn? Þetta var spurning helgarinnar á samfélagsmiðlum um allan heim og Ísland var engin undantekning. Allt snerist þetta um kjól sem var til sölu hjá Amazon. Þessi kjóll er víst blár og svartur en myndin af kjólnum, sem gekk um netheima var þannig að fólk sem stóð hlið við hlið og horfði á sömu myndina sá ekki endilega kjól sem var eins á litinn. Sum sáu svartan og bláan kjól á meðan önnur sáu gylltan og hvítan.

Útskýringin á þessu hefur með ýmsa þætti að gera. Myndin er víst tekin við ákveðnar birtuaðstæður sem gera það að verkum að það fer eftir birtunni í kringum okkur og hvernig ljósið fellur á myndina, hvernig við sjáum litina. Og þarna hafa litir umhverfisins á bakvið kjólinn á myndinni, einnig áhrif.

Reyndar er til mikið af myndum sem eru þannig gerðar að þú getur séð tvennt eða fleira ólíkt út úr þeim, eftir því hvernig þú horfir.

En það merkilega er að heilinn ákveður að stórum hluta hvernig við sjáum liti og þar spila forsendur okkar og væntingar stórt hlutverk.

———

Það er kannski ekkert mjög flott að líkja Guði við kjól en ég ætla samt að gera það.

Spurningar dagsins hjá börnunum úr 6 – 9 ára starfinu voru, hvað er Guð og hvernig er Guð? Það var nú ekkert barn sem svaraði að Guð væri eins og kjóll en svörin þeirra voru ólík því þau sáu ekki öll Guð á sama hátt.

Ef þú ert spurð, hvað er Guð þá er ekki víst að þitt svar verði eins og mitt. En eins og með kjólinn þá er ekkert sem segir að annaðhvort okkar hafi rétt fyrir sér. Kannski höfum við bæði rétt fyrir okkur.

Ég held það.
Guð getur nefnilega verið svo margt.

Þegar ég var barn sá ég Guð fyrir mér svolítið eins og góðlegan karl sem sat uppi í himninum og var alltaf tilbúinn að hjálpa mér. Jafnvel gefa mér nammi ef það var hjálpin sem ég þurfti. Síðan breyttist myndin mín af Guði þegar ég varð eldri og þroskaðri og hún er enn að breytast.

Í dag trúi ég því að Guð sé meira eins og þessi kjóll eða svona myndir sem sýna okkur mismunandi hluti eftir því hvert sjónarhornið okkar er og væntingarnar.

Í dag þykir mér t.d. nokkuð ljóst að Guð sé ekki karlmaður og ekki kvenmaður. Ég held að Guð sé ekki ofurhetja sem reddar öllu. Þá væri heimurinn væntanlega öðruvísi en hann er í dag. Ég held að Guð sé heldur ekki eitthvað sem tekur frá okkur alla sorg og allan sársauka eða eitthvað sem hlífir okkur við lífinu, öllu þessu erfiða?

En hvernig er þá Guð eiginlega?

Ég trúi því að Guð sé ekki eins og persóna heldur hugsa ég mér Guð meira sem kærleika. Kærleika sem fyrirfinnst í tengslum milli persóna. Þannig er Guð eitthvað persónulegt þó Guð sé ekki persóna, eins og ég og þú. Guðsmyndin snýst, í munum huga, um tengsl. Tengsl á milli alls í alheiminum. Guð er samhengið í heiminum. Það sem tengir allt saman.

Ég trúi því að við finnum Guð helst í öðru fólki og í umhverfinu. Að Guð birtist okkur í tengslunum við hvert annað og umhverfið.

Guði er gjarnan líkt við ljós en aldrei myrkur. Í Biblíunni er Guð ljósið en ekki myrkrið því ljósið sigrar alltaf myrkrið. Ljósið er alltaf sterkara en myrkrið.

Ég er þó sannfærð um að Guð sé bæði í ljósinu og myrkrinu.

Þegar mér hefur liðið illa og lífið hefur verið erfitt þá hef ég kannski ekki fundið svo sterkt fyrir Guði. En þegar mér hefur farið að líða betur og ég horfi til baka, þá sé ég svo greinilega hvernig ég hef verið borin af Guði, sem er sterkari en ég.

Og þegar allt gengur vel, lífið leikur við mig og ég er sterk þá finn ég svo vel fyrir Guði, einhverju sem er stærra og meira en ég.

Þegar þér líður illa. Þegar þú átt erfitt og veist ekki hvert þú getur leitað, já og ert bara of niðurbrotin til að geta beðið um hjálp. Þá er Guð með þér. Heldur í höndina þína. Heldur á þér. Þegar síðan einhver manneskja sér loks hvernig þér líður þá held ég að það sé Guðs verk.

En oftast er lífið ekki svo svart og hvítt að við séum annað hvort í myrkri eða ljósi. Ljósinu fylgja skuggar og yfirleitt er einhver skíma í myrkrinu. Lífið verður einfaldlega dýpra og áhugaverðara þegar ljós og myrkur blandast saman. Svona eins og að bestu brandararnir eru yfirleitt sorglegir líka því þeir kafa dýpra.

——-

Guð er eins og kjóllinn sem mörg okkar eru upptekin af þessa dagana. Það fer eftir sjónarhorninu hver Guð er fyrir okkur. Það fer eftir sjónarhorninu hvort við finnum Guð.

Þetta sjónarhorn er reynslan okkar, þekking, langanir og þrár.

Og, vitið þið hvað? Ég held að Guð geti rúmast í öllum okkar myndum af Guði. Að Guð sé bæði svartur og blár og hvít og gyllt. Að öll getum við haft rétt fyrir okkur. Þess vegna held ég að þetta snúist kannski ekki alltaf um það hvort Guð er til eða ekki, heldur hvað Guð er fyrir þér.

Því langar mig að hvetja okkur á Æskulýðsdegi til að fagna fjölbreytninni og virða upplifanir og sjónarhorn hvers annars bæði þegar við tölum um Guð og þegar við tölum um lífið og hvert annað.
Amen.