Samvera fyrir syrgjendur verður í Grafarvogskirkju fimmtudaginn 18. desember kl. 20.00 og eru þau sem syrgja ástvini sína sérstaklega boðin velkomin.
 Jólin og undirbúningur þeirra reynist mörgum syrgjendum erfiður tími og á samverunni gefst tækifæri til að staldra við og taka sér tíma til minnast þeirra sem ekki eru lengur meðal okkar og tendra ljós í minningu þeirra.

Dagskráin er fjölbreytt , sr. Agnes M. Sigurðardóttir flytur hugvekju og Hamrahlíðarkórinn syngur undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur. Samveruna leiðir sr. Arna Ýrr Sigurðardóttir en organisti er Hákon Leifsson. Sungnir verða jólasálmar og að lokum er minningarstund. Öll dagskráin er túlkuð á táknmál. Eftir stundina verður boðið upp á veitingar.

Þau sem standa að þessari samveru eru Ný dögun, Landsspítalinn og Þjóðkirkjan. Fólk sem missir ástvin hefur oft tengst nánum böndum við starfsfólk þessara stofnana og hefur það fundið mikla þörf fyrir aðstandendur að fá tækifæri til að undirbúa jólin með því m.a. að heyra jólaguðspjallið og syngja jólasöngva. Það er einmitt á á stórhátíðum sem margir finna til söknuðar þegar látinn ástvin vantar í hópinn.